Lífrænt ræktuð Solla

Fáir hafa haft jafn mikil og jákvæð áhrif á matarvenjur okkar Íslendinga eins og Solla. Hún hefur verið óþreytandi við að miðla fróðleik sínum um heilnæmt fæði með gleði og hlýju í tugi ára. Eitt það mikilvægasta sem hún hefur kennt okkur er að hollur matur getur líka verið bragðgóður og spennandi, en það minnir hún okkur á alla daga á veitingastöðum Gló.

Solla er þó ekki einungis þekkt fyrir gómsæta matargerð sína hér á landi heldur hefur hún verið kosin besti hráfæðikokkur í heimi oftar en einu sinni og fær mikla athygli erlendis frá. Nýverið gaf hún út á ensku bókina RAW  hjá hinu virta forlagi PHAIDON og hefur hún notið mikilla vinsælda. Bókin hefur þegar verið þýdd á frönsku, þýsku og ítölsku auk þess sem fleiri þýðingar eru þegar hafnar. Vart þarf að fjölyrða um íslenskar bækur hennar sem eru fjölmargar, þ.á.m. Himneskt að njóta, Eftirréttir Sollu, Heilsuréttir Hagkaups og Grænn Kostur Hagkaupa.

Solla er sjálf frábær fyrirmynd þegar kemur að heilsu og mataræði og leyfir landanum ætíð að fylgjast með því nýjasta sem hún er að uppgötva. Hún vinnur daglega að betri heimi hvort sem það er með fræðslu, matargerð eða brosinu einu saman. Svo stendur hún líka á haus á hverjum degi!