Umhverfisstefna Gló

Í meira en áratug hafa allir veitingastaðir Gló flokkað rusl vel og vandlega. Allt rusl á Gló er flokkað og sent í viðeigandi endurvinnslu en einnig er lögð mikil áhersla á að takmarka ruslasöfnun til að byrja með.

Með tilkomu miðlægs frameiðslueldhúss hefur til að mynda gefist tækifæri til að kaupa hráefni í stærri umbúðum og skipta niður á milli staða frekar en að kaupa minni og umbúðameiri pakkningar á hvern stað fyrir sig. Notast er við margnota ílát þegar matur er fluttur á milli staða, bæði frá eldhúsinu til veitingastaðanna en einnig í mörgum tilfellum þegar fyrirtæki panta stóra skammta í hádeginu.

Ein stærsta áskorun Gló var að útrýma frauðbökkum undir matarskammta fyrir einstaklinga en eftir að hafa komið að lokuðum dyrum hjá öllum innflytjendum flutti Gló inn sinn eigin gám af matarboxum úr niðurbrjótanlegu efni árið 2011. Framtakinu var vel tekið og skömmu síðar hófst almennur innflutningur og notkun á náttúruvænum matarbökkum meðal annarra veitingastaða. Í dag eru allar take-away umbúðir Gló úr annað hvort PLA (plöntuplasti), pappír eða bambus. Til að minnka rusl ennþá frekar þá fá allir viðskiptavinir sem koma með margnota ílát 10% af mat eða kaffi.

Gló hefur unnið hörðum höndum að því að gera grænmetis og grænkerafæði “mainstream” frá stofnun. Viðskiptavinir Gló vita að hægt er að fá alla rétti í vegan útgáfu og þannig getur kúnninn sjálfur tekið meðvitaða ákvörðun.  Meira en 90% hráefna Gló veitingastaða eru vegan, til dæmis eru allar sósur gerðar frá grunni án mjólkurvara. Gló vegan veitingastaðurinn í Engjateig er með ólíkum matseðli en hinir Gló staðirnir til þess að sýna fram á enn meira úrval af vegan réttum en í boði er á hefðbundnum Gló stöðum.

Gló hefur einsett sér að leita ávallt bestu leiða til að vernda umhverfið og minnka matarsóun.

© Höfundaréttur 2020 GLO.IS. Öll réttindi áskilin.