Um Gló

Frá litlum neista í tindrandi Gló

Árið 2008 tóku Sólveig Eiríksdóttir og Elías Guðmundsson við rekstri Gló í Listhúsinu. Það hafði verið rekið í eitt ár af Guðna Gunnarssyni og Guðlaugu Pétursdóttur samhliða Rope Yoga starfsemi í sama húsi. Frá fyrsta opnunardegi Gló var markmiðið skýrt: að auðvelda fólki að næra sig rétt, útdeila kærleik og hafa þannig jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu. Þegar að því kom að Sólveig og Elías, betur þekkt sem Solla og Elli, tækju við staðnum, var ekki um róttæka breytingu að ræða heldur fullkominn samhljóm við þeirra eigin gildi.

Ákvörðunin var tekin á föstudegi og nýjir eigendur hófu að afgreiða mat strax á mánudegi eftir að hafa eytt helginni í að versla inn til matargerðarinnar í Hagkaup og skorið niður grænmeti í eldhúsinu á Engjateigi. Sköpunarkraftur og ástríða Sollu skilaði sér í töfrandi réttum og kraftmikilli stemmingu á daginn en birtist í óþrjótandi fróðleik á námskeiðunum sem hún hélt á kvöldin. 

Í maí árið 2013 opnaði Gló nýjan stað á Laugavegi 20b sem á sér bæði sögu tengda heilsubyltingu Íslendinga og einnig hjá Sollu sjálfri. Í húsinu hafði Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) lengi verið til húsa en einnig var þar lengi rekinn veitingastaðurinn Á næstu grösum þar sem Solla sjálf hafði starfað snemma á ferlinum. Hún var því komin á gamlar heimaslóðir með nýja nálgun og voru viðtökurnar fram úr björtustu vonum.

Ári eftir opnun á Laugavegi barst sterkur liðsauki þegar hjónin Birgir Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir keyptu hlut í Gló. Í framhaldinu voru tveir nýir staðir opnaðir. Fyrst var Gló í Fákafeni þar sem jafnframt var settur upp Tonic Bar sem framreiðir nærandi og hressandi drykki, en matsalan í Fákafeni var hönnuð með nýju sniði. Þar hefur frá upphafi verið boðið upp á sérsamsettar skálar að óskum hvers og eins, uppfullar af fersku grænmeti, heilnæmum próteingjöfum og ljúffengum sósum sem er núna þemað á öllum Gló stöðum. Fljótlega eftir opnun í Fákafeni voru gestir boðnir velkomnir á nýjan stað Gló í Hæðasmára, Kópavogi, þar sem einnig hafði verið sett upp miðlægt framleiðslueldhús Gló. 

Í dag eru staðirnir fjórir reknir af sömu og hugsjón og ástríðu og lá í loftinu þegar Solla og Elli opnuðu dyrnar í fyrsta sinn á Engjateignum, með það að markmiði að gera stöðugt betur og leita sífellt nýrra leiða til að uppfylla fjölbreyttar þarfir heilsumeðvitaðra Íslendinga. Öll vöruþróun, matarhönnun og nýsköpun er enn í höndum hinnar skapandi og orkumiklu Sollu sem er óþrjótandi brunnur hugmynda og kærleiks, enda er jafn líklegt að finna hana í frumlegum grænmetisútskurði, syngjandi í uppvaskinu eða í faðmlagi við nærtækan starfsmann.

GLÓ-ið vex með hverjum degi, bæði í umfangi en ekki síður innra með þeim fjölda gullmola sem myndað hafa Gló fjölskylduna í allri sinni dýrð.

© Höfundaréttur 2020 GLO.IS. Öll réttindi áskilin.